Þessi súkkulaðikaka er himnesk og laus við allt vesen

Mig langar til að deila með ykkur uppskrift að dásamlegri, mjúkri og svakalega bragðgóðri súkkulaðiköku. Þessi klikkar aldrei! En hún er ekki bara bragðgóð heldur er hún ofur einföld í bakstri. Ég kalla hana Allt í eina skál súkkulaðiköku. Það þýðir að öll hráefnin fara saman í hrærivélaskálina á sama tíma og svo hrærir maður öllu saman í 2 mínútur og voila! kakan er tilbúin – fyrir ofninn, ekki borða hana hráa 😉

Ef mig langar að “henda” í eina súkkulaðiköku með kaffinu og nenni bara ekki að vesenast mikið þá baka ég þessa. Ef ég vil gera sjúklega góða og fallega köku (með miklu veseni) þá baka ég þessa. Þessi súkkulaðikaka hentar í allt, nema kannski í bollakökur því hún er svo mjúk.

Hérna kemur svo uppskriftin:

  • 3,5 dl (400 gr) sykur
  • 3,5 dl (270 gr) hveiti
  • 2 dl (90 gr) kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 2 stk egg
  • 250 ml súrmjólk eða AB mjólk 
  • 250 ml sterkt kaffi ( ég nota oftast instant, helli bara upp á vel sterkan bolla)
  • 125 ml grænmetisolía (ég nota Wesson)
  • 1 tsk góð vanilla (ég nota vanillu frá Kirkland sem fæst í Kosti)

Aðferð:

  • Best er að undirbúa fyrst kökuformin. Í dag bakaði ég eina köku í 26 cm hringlaga formi (allt deigið í eitt form). Baksturstíminn er þá ca 55-60 mínútur m.v. 175°C heitan ofn. Oft skipti ég þó deginu í þrjú til fjögur 20 cm form (þegar ég vil fá háa og glæsilega köku með miklu kremi) og þá er baksturstíminn ca. 25-30 mínútur. Formin spreyja ég með olíu (t.d. Pam), klippi svo til hring af smjörpappír og legg í botninn á forminu.
  • Allt hráefnið er sett í eina skál og blandað saman í hrærivél. Stoppið hrærivélina eftir eina mínútu og með sleikju, hreinsið hliðarnar á skálinni svo allt blandist nú vel. Hrærið áfram í aðra mínútu.

Súkkulaðikaka - uppskrift www.alltsaett.com

  • Takið kökuna úr ofninum þegar hún er tilbúin og látið hana standa í ca. 5 mínútur á borðinu í forminu. Að því loknu er óhætt að hvolfa kökunni á kæligrind/vírgrind og fjarlægja varlega smjörpappírinn af kökunni. 
  • Nú þarf kakan að fá að kólna á borðinu. Á meðan beðið er eftir því að kakan kólni þá er um að gera að kíkja á fleiri færslur á bogginu mínu og reyna að ákveða hvað skal baka næst 😉

Súkkulaðikaka - uppskrift www.alltsaett.com

  • Þegar kakan hefur næstum náð herbergishita þá hvolfi ég henni á fallegan disk og smyr kreminu á.

Þessi aðferð gengur þó aðeins upp ef við bökum kökuna alla í einu formi og setjum bara krem ofan á hana. Ef við erum með nokkra botna og ætlum að setja þá saman með kremi þá þarf kakan að vera orðin alveg köld áður en kremið er sett á hana.

Ég vildi hafa þetta einfallt í dag svo kremið sem ég ákvað að setja á þessa köku er OFUR einfalt, aðeins tvö hráefni:

  • 200 gr Síríus konsum súkkulaði eða hvaða súkkulaði sem þér þykir gott, t.d. konsum orange, lífrænu súkkulaðin frá Himneskt eða Green and Black´s.
  • 30 gr smjör – við stofuhita

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Blandið smjörinu saman við súkkulaðið þar til það er orðið silkimjúkt. Og þá er bara að smyrja kreminu á kökuna og bjóða fólki að gjöra svo vel.

Súkkulaðikaka - uppskrift www.alltsaett.com

Share

7 thoughts on “Þessi súkkulaðikaka er himnesk og laus við allt vesen

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *