Þessar dásamlegu cappuccino bollakökur eru í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni, a.m.k hjá þeim sem hafa smekk fyrir kaffi 🙂 Þær eru fullkomnar með kaffinu á rólegum sunnudögum og það skemmir ekki að það er mjög einfalt að baka þær.
Uppskriftina fékk ég í bók Nigellu sem heitir How to be a domestic goddess, þakka ykkur fyrir! Í sömu bók er að finna snilldar uppskrift að amerískum pönnukökum sem maður hrærir í blendernum en meira af þeim síðar.
Hérna kemur svo uppskriftin:
- 115 gr hveiti
- 110 gr mjúkt smjör
- 105 gr sykur
- 2 stór egg
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 1 kúffull matskeið instant kaffi (duftið fer beint í skálina)
- 2-3 msk mjólk
Aðferð:
- Setjið allt í hrærivélaskál og blandið vel saman.
- Setjið 12 bollakökuform í bökunarmót og fyllið formin með deginu upp að 2/3.
- Bakið í ofni á 200°C í 20 mín.
- Takið kökurnar úr ofninum og leyfið þeim að hvíla í forminu í ca. 5 mín.
- Færið þá kökurnar yfir á kæligrind og látið þær bíða þar til þær hafa kólnað alveg.
Kremið:
Ég hef þurft að aðlaga uppskrifina hennar Nigellu að kreminu því þegar ég fylgi henni þá verður kremið allt of þunnt. En hérna er mín útgáfa:
- 75 gr hvítt súkkulaði
- 25 gr smjör
- 50 gr sýrður rjómi eða Ab mjólk
- 400 gr flórsykur.
Aðferð:
- Setjið súkkulaði og smjör í skál og bræðið saman í örbylgjuofni. Passið vel að brenna ekki blönduna. Látið súkkulaðið standa í smá stund svo það kólni aðeins og hellið því svo í hrærivélaskál.
- Þá er bara að blanda sýrða/Ab mjólkinni saman við súkkulaðið og byrja að hræra.
- Að lokum er flórsykurinn settur út í og kremið þeytt þar til það er orðið létt og ljóst.
- Ath! Ef kremið er of þunnt þá bætið þið bara flórsykri út í það þar til réttu áferðinni hefur verið náð. Eins ef ykkur finnst kremið vera of þykkt þá má bæta út í það sýrðum eða ab mjólk.
Sprautið eða smyrjið kreminu á bollakökurnar og sáldrið örlitlu kakói yfir. Voila! Cappuccino bollakökurnar eru tilbúnar 🙂
Eigið dásamlegan sunnudag.