„Getur þú bakað fyrir mig köku, ég er með matarboð á laugardaginn?“ spurði systir mín í síðustu viku. Ég var fljót að segja já! enda vissi ég alveg hvaða köku hana langaði í. Hún þurfti að vera súkkulaðikaka með súkkulaðismjörkremi, helst alveg eins og sú sem ég bakað fyrir afmælið hans pabba um daginn. Þessi systir mín er listamaður og það er sjúklega skemmtilegt að vinna með henni að hugmyndum að kökum og veislum. Hún sagðist vilja köku sem væri í sama dúr og kaka sem ég gerði fyrir 1 árs afmæli yngri sonarins, nema liturinn á súkkulaðinu átti að vera Burgundy.
Ég bakaði einfalda uppskrift af þessari súkkulaðiköku í 4 x 20 cm formum. Uppskriftin er 1.400gr svo 350gr fara í hvert form. Súkkulaðikremið er þetta hérna, en ég bræddi svo 150gr af dökku súkkulaði og blandaði út í smjörkremið þegar það var tilbúið. Súkkulaðið ofan á er candy melts frá Wilton í hvítu en ég litaði það með rauðum og fjólubláum gel matarlitum. Þegar maður litar súkkulaði með gel matarlitum þá þarf að gæta þess að blanda fyrst örlítilli olíu út í súkkulaðið svo það kekkist ekki. Ég bakaði svo þessa uppskrift af marengs, nema ég helmingaði hana og setti vanillsykur í stað lakkrísdufts út í marengsinn. Gullið sem ég nota til að skreyta marengsinn og súkkulaðið með er frá Mill & Mortar en ég keypti það í Kaupmannahöfn í sumar. Ég hef áður keypt frostþurrkuð ber frá sama merki í Frú Laugu svo mögulega eiga þau líka til gullið. Ef þið vitið hvort og þá hvar það fæst hérna á Íslandi þá megið þið endilega deila því með mér 🙂