Hvað segið þið um uppskrift að þessum dásamlegu með þykkri karamellusósu?
Ég bakaði þessar elskur í sílikonmóti sem ég keypti í Habitat. Í því móti er hægt að baka 8 vanillukökur og kostaði formið 950 kr. Ég sá að það var ennþá til þegar ég kom við í nýju búðinni þeirra í Lindunum um daginn. Ef þið eigið ekki svona lítil mót þá er alveg hægt að baka þær sem bollakökur. Fyllið þá formið bara 1/2 af deigi og bakið þær í 16 mínútur. Hellið svo karamellunni yfir kökurnar þegar þær hafa fengið tíma til að kólna.
Kökurnar smakkast líka dásamlega einar og sér með góðum kaffibolla.
Hérna kemur svo uppskriftin að vanillukökunum:
- 5 dl (350 gr) hveiti
- 1 msk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 230 gr mjúkt smjör
- 4 dl (430 gr) sykur
- 5 stór egg
- 2 tsk góðir vanilludropar
- 2 dl (300 ml) súrmjólk/AB mjólk
Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C.
Þetta er frekar stór uppskrift svo hún dugar í ca. 35 bollakökur eða tvo 23 – 25 cm kökubotna.
Bökunartími: litlar kökur (eins og á mynd) bakast í ca. 16 mínútur, bollakökur bakast í ca. 20 mínútur og kökubotnarnir í ca. 45 mínútur.
- Sigtið hveitið, lyftiduftið og saltið saman í skál. Setjið til hliðar.
- Þeytið smjörið í hrærivél (með spaðanum) þar til það er orðið létt og ljóst, í ca. 3 mínútur.
- Bætið sykrinum út í smjörið og þeytið áfram í ca. eina mínútu. Skafið skálina að innan með sleikju til að vera viss um að allt blandist vel saman.
- Hrærið áfram í eina mínútu.
- Bætið eggjunum, einu í einu út í blönduna og hrærið vel á milli.
- Skafið skálina aftur að innan með sleikjunni 🙂
- Bætið ca. 1/2 af hveitiblöndunni út í og hrærið.
- Bætið þá ca 1/2 af súrmjólkinni út í og endurtakið ferlið þar til allt hveitið og öll súrmjólkin er komin út í. Skafið skálina að innan með sleikju til að vera viss um að allt hafi blandast vel saman.
Karamellusósa:
- 115 gr sykur
- 30 ml vatn
- 40 ml rjómi (það er óhætt að þrefalda magnið af rjómanum ef þið viljið fá þynnri karamellu)
- 1 tsk góð vanilla
- 35 gr smjör
Aðferð:
- Setjið sykur og vatn saman í pott og hitið á miðlungs hita þar til sykurinn hefur allur leyst upp. Hækkið þá hitann undir pottinum og látið blönduna sjóða (án þess að hræra í henni). Fylgist með pottinum og takið hann af hitanum um leið og blandan er orðin fallega gullinbrún.
- Bætið þá rjómanum út í. Ath! þegar rjóminn blandast við karamelluna þá freyðir hún þó nokkuð og því verður að passa að potturinn sé ekki of lítill. Gott er að miða við að karamellan fylli ekki meira en 1/3 af pottinum áður en rjóminn fer út í.
- Hellið þá vanillunni út í.
- Blandið smjörinu við karamelluna.
- Leyfið karamellunni nú að kólna örlítið niður áður en hún er færð í könnu og henni svo hellt yfir litlu kökurnar.
- Ef karamellan verður of stíf þegar hún hefur kólnað þá má setja hana í örbylgjuna í 30 sek eða þar til hún hefur hitnað nóg til að mýkjast upp.
Njótið vel!
3 thoughts on “Litlar vanillukökur með karamellusósu – uppskrift”