Þessa dagana er ég að skipuleggja 13 ára afmæli eldir stelpunnar minnar. Ég hef m.a. verið að prófa mig áfram með að lita hvítt súkkulaði og gera fallega súkkulaðimola. Þessir molar eru æði því súkkulaðið má lita í hvaða lit sem er, t.d. ombre bleikum í babyshower fyrir stelpu, rauðum, grænum og hvítum um jólin eða gulum og myntugrænum fyrir páskana.
Eins og gefur að skilja þá þarf súkkulaðið að vera hvítt ef við ætlum að lita það og við verðum að velja gott hvítt súkkulaði því þetta eru jú konfektmolar sem við erum að gera 🙂 Í Hagkaup er hægt að fá mjög gott súkkulaði frá Barry Callebaut í 240gr pokum (súkkulaðidropar). Svo fæst líka dásamlegt hvítt súkkulaði frá Green & Black’s bæði í Hagkaup og Bónus.
Formið sem ég notaði til að móta pýramídana fékk ég í Hagkaup en það er flutt inn af Allt í köku og fæst því líka þar.
Ég bræði súkkulaðið í örbylgjuofni, byrja á 30 sek og svo 10-20 sek þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Nausynlegt er að hrærar alltaf í súkkulaðinu á milli og passa að hita það ekki of mikið.
Ég notaði hefðbundna gelmatarliti þegar ég litaði súkkulaðið. Þegar notaðir eru gelmatarlitir til að lita súkkulaði er nauðsynlegt að setja Flo-Coat (olíu) út í súkkulaðið með matarlitnum svo það stífni ekki. Við setjum 5 dropa af Flo-Coat út í bráðið súkkulaðið fyrir hvern dropa af gelmatarlitnum og blöndum svo öllu vel saman.
Sumir molarnir mínir eru fylltir með Oreo kexi en þá myl ég niður Oreo kex, fylli mótið af 1/3 – 1/2 af súkkulaði, set nokkra Oreo mola út í og fylli svo mótið með meira súkkulaði (þarna er tilvalið að vera með tvo liti af súkkulaðinu 🙂 ). Það má líka t.d. setja hnetur, romm-rúsinur, Nóa kropp eða lakkrís út í súkkulaðið 🙂 Ég læt svo formið standa í ísskáp í 30 mínútur á meðan súkkulaðið stífnar.
Svo elegant og bragðgott, tveir þumlar upp