Ég sá Nigellu skella í þessa ostaköku í einum af hennar skemmtilegu matreiðsluþáttum. Mér finnst uppskriftirnar hennar oftast mjög einfaldar og (næstum) alltaf góðar 😉 Hún á það til að setja áfengi í allt sem hún gerir og ég er alls ekki spennt fyrir því. Ég er mjög spennt fyrir góðum drykk sem settur er í fallegt glas, minna fyrir það að sulla víninu í allt sem framleitt er í eldhúsinu 😉 En allavega, höldum okkur við ostakökuna. Í henni eru bara 5 hráefni og enginn bakstur – ísí písí!
Ég hef aðeins aðlagað uppskriftina hennar að mínum smekk (og þægindum). Nigella notar heslihnetur til að strá yfir kökuna. Ég hef sleppt því þar sem mér finnst hneturnar verða mjúkar á því að liggja á ostakökunni en þið auðvitað hafið þær með ef þið viljið. Nigella notar líka 500 gr af rjómaosti en ég nota 400gr, einfaldlega af því að rjómaosturinn frá MS kemur í 400 gr dollu 😉
Hérna getið þið skoðað uppskriftina hennar Nigellu.
Og hérna er mín útgáfa:
- 300 gr digestive kex
- 85 gr mjúkt smjör
- 1 x 400 gr krukka af Nutella
- 400 gr rjómaostur, við stofuhita
- 60 gr flórsykur
Aðferð:
- Myljið kexið í matvinnsluvél. Ef þú átt ekki matvinnsluvél getur þú t.d. sett kexið í plastpoka og mulið það með kjöthamri eða trésleif.
- Blandið smjörinu ásamt einni matskeið af Nutella út í kexið og blandið vel.
- Hellið blöndunni í form (ég nota 23 cm form) með lausum botni og sléttið úr því með höndunum (eða matskeið). Ýtið kexblöndunni aðeins upp á hliðarnar á forminu. Setjið formið í kæli á meðan þið hrærið í ostakökuna.
- Hrærið saman rjómaostinum og flórsykrinum í stórri skál. Hellið (eða skafið) Nutellanu út í skálina og blandið þar til allt er komið vel saman.
- Hellið rjómaostablöndunni í formið og smyrjið henni jafnt yfir kexið.
- Kælið í a.m.k. 4 tíma eða yfir nótt.
Njótið vel!