Ískaka með súkkulaðibráð og pekanhnetukaramellukurli

Ég elska ís og ég elska góða köku svo fyrir mér er ískaka hin fullkomna samsetning.

Þessi kaka er ótrúlega einföld í smíðum. Best er að undirbúa ísinn kvöldinu áður en kakan á að borðast. Ég ákvað að baka einfalda uppskrift af þessari frábæru súkkulaðiköku og hún passar akkúrat í þrjú 20 cm kökuform. En kvöldið áður tók ég tvö af þessum bökunarformum og settti álpappír inn í þau. Álpappírinn þarf að ná vel yfir barmana á formunum. Ég fyllti þau svo af mjúkum ís (ég lét ísinn standa á eldhúsborðinu í tíu mínútur áður en ég setti hann í kökuformin). Það fer einn lítri af ís í hvort form, samtals tveir lítrar. Ég valdi Mjúkís frá Kjörís með Pekanhnetum & karamellu – hann er æði! Þjappið ísnum vel niður svo hann nái út í alla kanta og setjið þá plastfilmu yfir og frystið ísinn í formunum yfir nótt.

Ískaka - uppskrift hjá www.alltsaett.comÍskaka - uppskrift á www.alltsaett.comÍskaka - uppskrift hjá www.alltsaett.com

Daginn eftir bakaði ég svo kökuna en það má auðvitað líka baka hana daginn áður en kakan verður sett saman. Á meðan hún bakaðist bjó ég til súkkulaðibráð en það er gert með því að saxa niður 120 gr af góðu súkkulaði og setja í skál og hita 100 ml af rjóma að suðu. Þegar rjóminn er orðinn heitur þá er honum hellt yfir súkkulaðið og hrært rólega í blöndinni þar til súkkulaðið hefur allt bráðnað.

Á meðan kakan kólnaði á vírgrind á borðinu bjó ég svo til hnetukaramellukurlið. Byrjið á því að setja smjörpappír á disk eða í eldfast mót. Spreyið smjörpappírinn með olíu. Vigtið 150 gr af sykri og setjið á pönnu (best að nota teflonhúðaða pönnu)  ásamt 2 msk af vatni og hitið blönduna á meðalháum hita í ca 10 mínútur eða þar til blandan hefur náð fallegum karamellulit. Slökkvið undir pönnunni. Hellið 100 gr af pekanhnetum út í karamelluna og hristið allt saman í pönnunni. Hérna þarf að gæta sín því karamellan er hrikalega heit og hún brennir mann inn að beini ef hún hellist yfir putta eða hendur. Karamelluhnetublöndunni er þá hellt á smjörpappírinn og hún látin standa á borðinu í ca 30 mínútur en þá hefur hún kólnað og harðnað. Núna er hægt að setja hneturnar í poka og lemja hann með kökukefli til að fá kurl. Lemjið eins lítið eða mikið og þið viljið, bara eftir því hversu fínt eða gróft þið viljið hnetukurlið ykkar 🙂

En þá að skemmtilegasta hlutanum, að setja kökuna saman.
Mögulega þurfið þið að skera örlítið ofan af kökubotnunum til að jafna þá.

  • Setjið einn kökubotn á kökudisk.
  • Leggið ís ofan á kökuna og flettið álpappírnum varlega af honum.
  • Leggið annan kökubotn ofan á ísinn.
  • Seinni ísinn er þá lagður á kökubotninn og álpappírinn fjarlægður.
  • Nú er að setja síðasta kökubotninn ofan á ísinn. Við látum botninn á þeim kökubotni snú upp því þá er toppurinn á kökunni alveg flatur.
  • Hellið súkkulaðibráðinni yfir kökuna. Notið spaða eða skeið til að dreifa úr súkkulaðinu.
  • Þá er bara eftir að skreyta kökuna með hnetukaramellukurlinu.

Ég mæli svo með því að þegar kakan hefur verið sett saman þá sé hún fryst í a.m.k. tvo tíma. Ég svindlaði aðeins og sleppti þessum hluta og þá er ísinn ansi fljótur að byrja að bráðna og leka 😉
Þegar kakan er sett í frysti þá þarf að passa að hún hafi gott pláss í frystinum og að hún geti staðið á sléttum fleti, s.s. halli ekki.
Takið kökuna út rétt áður en hún á að borðast.

Eigið góða og sæta helgi 🙂

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *