Súkkulaðitrufflur með lakkrísdufti, kakói og kókosmjöli – uppskrift

Súkkulaðitrufflur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Bæði elska ég að borða þær 😉 og svo er hrikalega einfalt og skemmtilegt að búa þær til. Allir geta verið með í „bakstrinum“ – ungir sem aldnir. Það er því frábært að eiga náðuga stund með börnunum eða vinunum, spjalla og hlæja saman um leið og maður hnoðar súkkulaði í bolta og veltir þeim upp úr einhverju góðu t.d. kakói, kókosmjöli, lakkrísdufti eða muldum hnetum.
Ég er líka mjög hrifin af lakkrís og því notaði ég tækifærið og blandaði lakkrískurli frá Nóa Síríus út í súkkulaðið. Er það bara ég eða hefur lakkrískurlið frá Nóa tvöfaldast að stærð? Mér fannst ég allavega þurfa að skera kurlið í tvennt áður en ég blandaði því saman við súkkulaðið. En ef þú ert ekki jafn hrifin af lakkrís og ég þá er hægt að sleppa því að bæta honum út í.

Súkkulaðitrufflur með lakkrísdufti, kakói og kókosmjöli - uppskrift Súkkulaðitrufflur með lakkrísdufti, kakói og kókosmjöli - uppskriftLakkrísduftið sem ég velti súkkulaðinu upp úr er frá Lakrids og það fæst í Epal. Dósin kostar í kringum þúsund krónur og hún er mjög drjúg. Ég hef notað þetta sama duft í marengs, út á ís og núna fékk það að faðma trufflurnar 🙂Súkkulaðitrufflur með lakkrísdufti, kakói og kókosmjöli - uppskriftLitli drengurinn minn stóðst ekki mátið þegar mamma hans var að taka myndir af trufflunum. Hann stóð lengi álengdar og fylgdist með en læddist svo að brettinu og nældi sér í eina trufflu 🙂 Hann sagði svo NAMM! NAMM! NAAMM! það sem eftir var dagsins 😉

Hérna er svo uppskriftin að súkkulaðitrufflunum (ca. 35 stk):

  • 300 gr Síríus konsum súkkulaði (eða eitthvað annað bragðgott súkkulaði, það eru t.d. til margar frábærar bragðtegundir frá Green & Black’s)
  • 40 gr smjör
  • 120 ml rjómi
  • Valkvætt – 75 gr (hálfur poki) lakkrískurl, hvert kurl skorið í tvennt.

Aðferð:

  • Brjótið súkkulaðið í bita og setjið það ásamt smjörinu í glerskál og hitið í örbylgjuofni í 30 sekúndur. Hrærið í súkkulaðinu. Hitið blönduna aftur í 30 sekúndur.
  • Hitið rjómann í potti að suðumarki.
  • Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og látið standa í ca. 2 mínútur.
  • Blandið súkkulaðinu og rjómanum varlega saman með sleikju.
  • Bætið lakkrískurlinu út í súkkulaðið.
  • Hellið blöndunni í eldfast mót – ég notaði glermót úr Ikea sem er 18*27cm.
  • Setjið mótið í ísskáp og kælið súkkulaðið þar til það er orðið stíft. Ég lét það bíða yfir nótt en 1-2 klst ættu alveg að duga.
  • Takið súkkulaðið úr ísskápnum ( og látið standa í ca. 30 mínútur á borðin ef það fékk að bíða yfir nótt í ísskáp).
  • Hafið til þau hráefni sem þið ætlið að velta trufflonum upp úr og setjið á litla diska eða í litlar skálar.
  • Mótið kúlur úr súkkulaðinu með höndunum (ég nota einnota hanska þegar ég hnoða kúlurnar – mér finnst það huggulegra þegar ég hugsa til þeirra sem svo ætla að borða trufflurnar 😉 )
  • Veltið trufflunum uppúr kókosflögunum, kakóinu og/eða lakkrísduftinu.
  • Geymið trufflurnar í kæli.

Litlu formin undir trufflurnar fékk ég í Húsamiðjunni.

Njótið vel!

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *