Ég er nú ekkert hrifin af drykknum Baileys og drekk það aldrei en mér finnst mjög gott að setja svolítið af því út í smjörkrem og smyrja því á góða súkkulaðiköku 🙂
Um daginn hittumst við nokkrar vinkonur í hádegismat, keyptum okkur súpu á Súpubarnum og tókum með okkur heim en mig langaði líka að bjóða upp á alvöru köku í eftirrétt. Ég ákvað því að skella í eina svona súkkulaði-Baileys bombu fyrir okkur vinkonurnar.
Ég bakaði einfalda uppskrift af þessari súkkulaðiköku. Já, ég nota mjög oft sömu uppskriftina eins og þið hafið kannski tekið eftir á blogginu mínu en þið skiljið það um leið og þið hafið smakkað hana 🙂 Ég hrærði svo þetta smjörkrem og setti 2,5 msk af Baileys út í kremið þegar það var tilbúið.
Ég veit að þetta sýnist kannski flókið krem en ég lofa ykkur því að þegar þið hafið hrært það einu sinni þá áttið þið ykkur á því að það er í raun mjög einfalt. Kremið er svo mjúkt og létt og alls ekki jafnsætt og hefðbundið smjörkrem (smjör, flórsykur og vanilla). Notið bara aðferðina þar sem þið finnið blönduna á milli fingranna (sjá lýsingu í bloggpóstinum um kremið) og þegar þið finnið ekki lengur fyrir sykurkornum þá er eggjablandan tilbúin fyrir hrærivélina. Og passið bara að hræra nærri stöðugt í blöndunni meðan hún er að hitna.
Hérna er svo að finna uppskriftina að súkkulaðibráðinni.
Nammið fékk ég flest allt í Kosti en þar fæst stundum svona pínu óhefðbundið sælgæti eins og hvíta KitKat-ið og Hershey’s cookies and cream súkkulaðið. Ég spreyjaði svo Oreo kexið með þessu gullspreyi sem ég pantaði einu sinni frá Þýskalandi …. já – ég missi mig stundum þegar ég sé eitthvað sniðugt kökutengt á netinu 😉
Eins og ég sagði þá drekk ég aldrei Baileys svo ég kaupi stundum svona litlar minature flöskur ef ég (eða einhver mér nákominn) á leið um fríhöfnina. Ég notaði tæplega eina svona litla flösku í kremið. Svo fannst mér tilvalið að skella flöskunni – tómri – ofan á kökuna og nota hana þannig sem skraut.
Njótið vel (og passið ykkur að klára ekki Baileysið áður en þið þurfið að setja það út í kremið 😉 )