Fyrir nokkrum mánuðum sá ég svo fallega köku á netinu. Hún var skreytt með Matcha smjörkremi sem gaf henni yndislegan grænan (já – ég veit) náttúrulegan lit. Engin þörf á að nota matarlit 😀 Þarna kviknaði áhugi minn á því að prófa að nota Matcha te í bakstur og loooooksins lét ég verða að því eftir að ég rakst á Matcha tea for cooking á Te & Kaffi.
Mörg ykkar þekka líklega þetta ofurte en sagt er að það innihaldi 10-15 sinnum meira af næringarefnum en annað grænt te og svo er það stútfullt af andoxunarefnum (sjá hérna). Hérna getið þið lesið ykkur meira til um Matcha te.
Hérna kemur svo uppskriftin að bollakökunum og kreminu:
380 gr sykur
320 gr hveiti
2 msk Matcha tea for cooking
1 1/2 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 egg
250 ml hrein súrmjólk eða AB mjólk
1 msk vanilludropar
120 ml bragðlítil olía t.d. Wesson grænmetisolía
60 ml heitt vatn (soðið)
Aðferð:
Hitið ofninn í 160°C. Raðið bollakökuformum í bollakökupönnur.
- Blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál.
- Blandið eggjum, súrmjólk, vanilludropum og olíu saman í annarri skál.
- Hellið eggjablöndunni yfir þurrefnin og hrærið öllu saman. Hellið þá sjóðandi heitu vatninu út í deigið og blandið vel.
- Fyllið bollakökuformin 2/3 full af deiginu. Ég nota ísskeiðar til að fylla í bollakökuformin mín því þá næ ég að setja jafn mikið í öll formin 😉 Hérna sjáið þið dæmi um svona ísskeið.
- Bakið kökurnar í 18-20 mínútur.
- Látið þær kólna alveg áður en þið setjið kremið á þær.
Matcha smjörkrem:
- 250 gr mjúkt smjör – við stofuhita
- 500 gr flórsykur
- 2 tsk Matcha tea for cooking
- 1 tsk vanilludropar
- 1/4 tsk salt
Aðferð:
Setjið öll hráefnin saman í hrærivélaskál og hrærið kremið saman í 3-5 mínútur eða þar til það er orðið mjög létt og öll hráefnin hafa blandast vel saman.
Njótið vel!